Að hafa ekkert að fela

Þegar umræða um auknar heimildir yfirvalds til að afla upplýsinga um borgarana kemur upp skiptist fólk gjarnan í tvær fylkingar. Það er, þeir sem vilja gefa rýmri heimildir og þeir sem vilja það ekki. Fyrri hópurinn á það til að nota röksemdafærsluna ,,Ef þú hefur ekkert að fela við hvað ertu þá hrædd/ur“ eða ,,Ef þú ert ekki að gera neitt af þér, hvers vegna ertu þá hrædd/ur?“. Í þessum pistli ætla ég að reyna að varpa ljósi á hvers vegna mér finnst það skapa borgaralegum réttindum okkar hættu ef allir myndu fallast á að yfirvaldið mætti vera með nefið ofan í hvers manns koppi vegna þess að meirihlutinn hefur ekkert óhreint mjöl í pokahorninu og sjálfsagt er að lögregla fái heimildir til að koma upp um lögbrot, jafnvel áður en þau eru framin.

Þeir eru bara að elta ljótu karlana og passa upp á okkur, þau hafa engan áhuga á að vita hvar og hvenær við pöntum pítsuna okkar eða hvort að við hringjum í ömmu okkar á sunnudögum, og það er hvort sem er ekkert til að skammast sín fyrir ef upp um það kæmist. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega um þessar forvirku rannsóknarheimildir sem lögreglan vill fá, heldur vil ég frekar reyna að útskýra hvers vegna við ættum að vera vör um okkur þegar kemur að rétti okkar til að hafa hluti út af fyrir okkur. Til að svara þeim sem telja enga hættu fólgna í því að auka heimildir til að fylgjast með okkur þurfum við að reyna að njörva niður hvað sé friðhelgi einkalífs og hvers vegna það sé mikilvægt að halda í þau forréttindi að njóta þeirra, burtséð frá því hvort við séum að gera eitthvað af okkur eða ekki. Tökum dæmi:

Ungur maður er að keyra heim til sín eftir að hafa gengið upp Esjuna með vinkonu sinni, hann er í heimatilbúnum pokabuxum, fjólublárri ullarpeysu, með grænan klút um hálsinn, sítt hár og hring í augabrúninni. Hann tekur eftir því að lögreglan er fyrir aftan hann, ,,Djöfullinn, ætli þeir stoppi mig!“ hugsar hann. Þar sem að viðkomandi er tiltölulega bílhræddur þá keyrir hann sjaldnast yfir 80 km hraða þannig að lögreglan ákveður að taka fram úr, þeir keyra á hinum vegarhelmingnum og hægja á sér og horfa á ökumanninn, eftir að hafa virt hann fyrir sér dálitla stund hægja þeir á sér, hætta við að taka fram úr og koma sér fyrir aftan bílinn og setja bláu ljósin á. ,,Oh, er ég ekki örugglega með ökuskírteinið, jú, hjúkk ég tók veskið með.“ Hann leggur úti í kanti og lögreglumaður kemur að niðurskrúfaðri bílrúðunni og spyr eftirfarandi spurninga;

* Hvert ertu að fara?

* Hvaðan ertu að koma?

* Hvað gerir þú?

* Hvar býrðu?

Ekki múkk um skráningarskírteini eða ökuskírteini heldur á sér þarna stað yfirheyrsla úti í kanti við þjóðveginn að engu tilefni. Ungi maðurinn svarar spurningunum en þykja þær heldur óþægilegar og furðulegar, lögreglumaðurinn heldur áfram;

,,Neytir þú fíkniefna?“Spyr hann.

,,Hvers vegna er svona mikil hasslykt í bílnum hjá þér?“

,,Bíddu nú við“ hugsar ökumaðurinn. ,,Það hefur ekkert hass verið reykt í þessum bíl að mér vitandi, ah ég anga örugglega af svitablandaðri patchouli lykt, hann heldur að ilmolían sem ég er með sé graslykt“. Ungi maðurinn svarar; ,,Það er engin hasslykt í bílnum, hér hefur ekkert hass verið reykt, hinsvegar nota ég ilmolíu sem að gæti verið að rugla þig eitthvað“. Lögreglumaðurinn tekur upp vasaljós og lýsir í augu unga mannsins.

,,Má ég leita í bílnum hjá þér?“ spyr lögreglumaðurinn.

,,Leita í bílnum hjá mér? Hvers vegna í ósköpunum vill hann leita í bílnum hjá mér, hann hefur enga ástæðu til þess.“hugsar ungi maðurinn. Prinsippsins vegna svarar hann neitandi. Hann á fullan rétt á því að fara út fyrir bæinn í göngutúr með vinkonu sinni án þess að á honum sé leitað og hann sakaður um glæpsamlegt athæfi án þess að hafa gefið neitt upp í yfirheyrslu lögreglunnar sem benti til annars en að hann væri bara á heimleið eftir fjallgöngu.

,,Hvers vegna ekki?“ Spyr lögreglumaðurinn á móti með þjósti.

Ungi maðurinn útskýrir fyrir lögreglumanninum að til þess að leita í bílnum þurfi hann heimild og rökstuddan grun um að eitthvað vafasamt væri þar að finna, eða að hann sjálfur myndi veita honum leyfi til þess, sem hann vildi ekki gera þar sem ekkert af þessum skilyrðum séu uppfyllt og sér finnist lögreglan vera með þessu móti að ráðast inn á hans persónulega rými.

,, Þá verðum við að handtaka þig vegna gruns um fíkniefnamisferli!“ Ansar lögreglumaðurinn önugur.

,,Hvað er nú í gangi? Handtaka mig vegna gruns um fíkniefnamisferli og fara með mig upp á lögreglustöð og leita í bílnum mínum“. Hann finnur að prinsippið er að bresta, enda dauðþreyttur og langar bara að komast heim í sturtu og snemma í rúmið. ,,Andskotinn hafi það, ég heimila þeim bara leit í bílnum og á mér svo get ég farið heim og vonandi verið í friði þar.“ Hann stígur út úr bílnum og hinn lögreglumaðurinn er kominn út að hjálpa hinum að leita. Þegar búið er að káfa á honum, athuga í vasana og búið að leita í bílnum fær hann loks að halda áfram. Engin skýrsla, engin afsökunarbeiðni, ekki neitt.

Ég er ekki lögfræðingur en þetta finnst mér vera dæmi um hvernig brotið er á friðhelgi einkalífs ökumanns bifreiðarinnar og vegið að borgaralegum réttindum hans. Þetta er í það minnsta valdníðsla og það er svona valdníðsla sem verður til vegna þess að fólk gefur eftir af réttindum sínum. Hann er beinlínis kúgaður til að heimila leitina vegna þess að ef að hann gerir það ekki þá þýðir það að hann er færður upp á lögreglustöð, jafnvel settur inn í fangaklefa, kannski afklæddur við líkamsleit og niðurlægður. Eingöngu vegna þess að hann vildi standa vörð um þann rétt sinn að yfirvaldið gæti ekki bara vaðið í hans eigur fyrirvaralaust og brúkað að vild í von um að finna eitthvað annarlegt á hann. Hann hafði ekkert saknæmt að fela og hafði heldur ekki í hyggju að gera neitt ólöglegt. Né heldur hafði hann sagt eða gert eitthvað sem benti til þess að hann væri undir áhrifum fíkniefna eða hefði þau í fórum sér.

En þrátt fyrir það lág hann undir grun og þess vegna var fylgst með honum, hann yfirheyrður og svo í kjölfarið leitað á honum og í bílnum hans. Þið getið rétt ímyndað ykkur að ef þetta er eitthvað sem að lögreglan stundar (og ég veit að hún gerir), hvernig hún muni fara með auknar heimildir til að fylgjast með fólki sem hún hefði undir grun fyrir hitt og þetta. Ef það eina sem að þarf til að liggja undir grun er að vera akandi um þjóðveginn. Ef lögreglan hagar sér svona gagnvart fólki áður en hún fær til þess rýmri heimildir, hvað gerir hún þegar hún má ganga ennþá lengra? Lesa póstinn þinn, hlera símann þinn, koma fyrir hlerunarbúnaði heima hjá þér þegar þú ert ekki heima, sjá hvaða vefsíður þú skoðar, kíkja yfir tölvupóstinn þinn, skoða skilaboðaskjóðuna á Facebook, og svo mætti lengi telja, löglega og án þess að hafa rökstuddan grun um að þú ætlir þér eitthvað skelfilegt!

Það sem fólk heldur er nefnilega að það komi ekkert fyrir það vegna þess að það hafi ekkert að fela, það hafa allir eitthvað sem þeir vilja hafa út af fyrir sig. Ekki endilega eitthvað sem varðar við lög, heldur eitthvað sem fólk vill hafa prívat. Væri einhver til í live stream sent upp á lögreglustöð úr stofunni heima hjá sér, tja eða svefnherberginu? Eða öllu heldur og líklegra að einhver liggi á hleri og skrái niður hvert orð og eigi upptöku af því þegar þú átt í samskiptum við einhvern í trúnaði? Það eru sjálfsagt til einhverjir sem að myndu sjálfviljugir prenta út öll rafræn samskipti sín, sjúkraskýrslur, dagbækur, bankaupplýsingar, yfirlit yfir hvaða bækur viðkomandi hafi tekið á bókasafninu í gegn um tíðina og svo framvegis og afhenda lögreglu til aflestrar en ég held að þeir séu ekki margir. Sem betur fer.

Advertisements

3 thoughts on “Að hafa ekkert að fela

  1. Pingback: Hvað um þá sem eru sekir? | Tuðið mitt

  2. Pingback: Fordæming, stimplun og einelti í garð vímuefnaneytenda | Snarrótin – Samtök um borgaraleg réttindi

  3. Pingback: Stimplun og vímuefnaforvarnir | Blogg - Sigurfreyr.com

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s