Einhæf og nánast gagnslaus meðferðarúrræði

Jæja ég lifi, hef bara ekki verið í skapi til að tjá mig upp á síðkastið, en hér kemur ein pæling.

Hvert leitar fólk sem að finnur ekki rými í lífi sínu fyrir æðri máttarvöld en langar samt að hætta að drekka eða misnota lyf, hverskonar? Það má færa fyrir því rök að einungis sé til ein meðferð á Íslandi við áfengisböl og fíknisjúkdómum, sú meðferð felst í því að ganga til liðs við AA samtökin eða í það minnsta daðra við hugmyndafræði þessara vafasömu samtaka t.a.m 12 sporin. Hvernig stendur á því að samtök sem vilja láta taka sig alvarlega og hafa meira að segja lækni í forsvari fyrir sig kjósa að leita til kukllækninga frá því um miðja síðustu öld?

Ástæðan fyrir því að ég gagnrýni AA samtökin er ekki vegna þess að ég sé trúleysingi sem þykir hlægilegt að leita til æðri máttar þegar kemur að hinum ýmsu vandamálum, ónei. Ástæðan fyrir minni gagnrýni er að það virðist vera EINA leiðin fyrir fólk sem á við fíknisjúkdóma að stríða. Það er virkilega sorglegt að hámentaðir einstaklingar hafa með litlum árangri og ítrekað bent skjólstæðingum sínum á að 12 spora samtök samin af umdeildum lífskúnstnerum sem töldu sig hafa vit á því upp úr 1930 hvað þyrfti til að halda áfengissýki í skefjum

Mér finnst það í raun grafalvarlegt að nánast allar meðferðarstofnanir,  séu mest megnis undir áhugamannafélögum komin. Það er eðlilegt að fólk sem hefur leitað í bákn eins og kirkjur vilji gott gera og bjóði sínum minnsta bróður afnot af vistarverum sínum í nafni trúar sinnar. En það að ríkið taki þátt í að standa straum af rekstri költa innan hinna ýmsu trúfélaga er algjörlega ótækt.

Þið fáið mig ekki til að trúa því að meginþorri fólks sem á við fíknisjúkdóma að stríða sé innst inni trúað og það þurfi bara að fletta ofan af laginu sem er að blokkera það að Guð komi inn í líf þeirra og leiði það á rétta braut með kaffiþambi og þvaðri um æðri mátt úti í bæ.

Hvað er það sem fær fólk eins og sálfræðinga, félagsráðgjafa, lækna og aðra sem hafa eytt árum og jafnvel áratugum í menntun sína til að halda að eitthvað kukl frá því snemma á síðustu öld sem býður upp á fundi sem ganga út á að taka 12 spor undir yfirsjón almættisins, geti læknað skjólstæðinga sína. Þessir fagmenn eru jafnvel í sífelldri endurmenntun til að standast kröfur nútíma samfélags.

Hvers vegna erum við ennþá að nota AA samtökin og kristilegar samkomur sem einu lausnina. Hvers vegna er áherslan ekki til dæmis lögð á hugræna atferlismeðferð þar sem sjúklingurinn skoðar og reynir að komast að því hvað veldur óreglunni. Mér þætti það a.m.k trúverðugri aðferð en að lifa einn dag í einu undir verndarvæng einhvers almættis.

Advertisements

Að vafra í næði

Kanadíska Píratapartýið heldur úti vefsíðu sem er kölluð Encrypt everything, þetta er frábær síða sem er með upplýsingar um hvernig maður getur komist hjá því að ýmsar upplýsingar séu raktar til manns og misnotaðar af einhverjum sem er með smá tölvukunnáttu og er forvitin um hagi þína. Ég er mjög langt frá því að vera sérfræðingur en hef lesið mér til og lært ýmislegt sem gerir mér kleift að vafra á netinu án þess að hægt sé að rekja það beint til mín á auðveldan hátt. Hér eru nokkur dæmi.

Tor browserinn

Tor getur þú notað til að vafra um netið og skoða það sem þér sýnist án þess að upplýsingarnar séu í fljótu bragði raktar til þín persónulega. Þegar mikið af síðuhöldurum notar hið krípí fyrirbæri Google Analytics til að fylgjast með traffík á vefinn sinn þá er um að gera að nota eitthvað sem blekkir GA. GA getur í fyrstu virkað á fólk sem ótrúlega sniðugt fyrirbæri til að kortleggja heimsóknir á vefinn sinn og vinna þannig úr upplýsingunum sem vefstjórar fá til að bæta vefinn. EN! Það er mjög auðvelt að upplýsingar geti á einfaldan hátt verið raktar til þín ef þú passar þig ekki.

Vandamálið við Tor er að hann er hægur, vegna þess að þú ert auðvitað að tengjast á netið í gegn um kannski eitthvað allt annað land en þú ert staddur eða stödd í. Þess vegna er afskaplega hvimleitt að nota Tor í daglegu vefrápi. Tor notar maður ef maður vill til dæmis heimsækja og skrifa komment á vefsíðu hjá einhverjum sem maður vill að verði ekki rakið beint til manns. Hérna þarf maður samt að passa sig á að ef þú ert að fara að skoða vefsíðu sem þú vilt ekki að upplýsingar verði raktar til þín, farðu á vefsíðuna beint í gegn um Tor browserinn. Ekki fara á færsluna sem þú ætlar á kommenta á í þínum browser og copya svo urlið í Tor, það er kannski ekki beint hægt að rekja til þín en það er auðvelt að giska á ef færslu hefur aldrei verið flett sl viku/mánuði/ár svo kemur heimsókn frá þér og stuttu seinna einhverjum öðrum sem kommentar, þá er nokkuð augljóst að það sért þú sem ert að vesenast á síðunni.

Mozilla Firefox og Ghostery

Ef þú ert að nota Google Chrome, hentu honum út. Google er njósnafyrirtæki og þú ættir ekki að vera að nota þennan browser ef þér er annt um að vafra í næði. Þess vegna ættir þú að ná þér í Mozilla Firefox sem er aksjúllí annt um að þú getir vafrað á netinu í næði. Þegar þú ert búin að setja upp Firefox settu þá líka upp Ghostery, það er mjög einföld viðbót við vafrann og gerir þér kleift að blokka viðbjóð eins og Google Analytic og fleira sem kortleggur þína netnotkun. Það er til dæmis engin tilviljun að sömu eða svipaðar auglýsingar sem tengjast jafnvel þínu áhugasviði eru að birtast hjá þér á mismunandi vefsíðum. Þetta er allt tengt saman, krípí sjitt, ekki rétt.

Að stofna nýjan aðgang einhverstaðar

Þegar þú stofnar aðgang einhverstaðar til dæmis á samskiptavef eða hvað sem er þá krefja stundum síðurnar mann til að gefa þeim upp email. Stundum getur maður notað eitthvað rugl eins og 123@123.is en svo eru líka síður sem senda þér einhvern staðfestingarkóða til að þú getir virkjað aðganginn þinn. Þá notar maður ekki sitt eigið email! Þá notar maður email sem er bara til í kannski 10 mínútur eins og 10minutemail og hverfur síðan út í buskann. Maður gerir þetta til dæmis vegna þess að þú vilt ekki að aðgangurinn þinn inn á stefnumótasíðu sem þú notaðir fyrir löngu síðan sé virkjaður aftur ef einhver kemst yfir lykilorðið á emailinu þínu, og einhver fari að tröllast eða skoða skilaboð sem þú átt þar í þínu nafni. Sá sem kemst yfir emailið þitt sem þú notar til að virkja aðganginn þinn út um hvippinn og hvappinn er komin með stjórn á öllum aðgöngum sem þú sem þú hefur notað þetta email til að virkja.

Dulkóðun samskipta

Flestir í dag nota Facebook chattið til að tala um sín persónulegu málefni við aðra. Það er rugl, vegna þess að ef einhver kemst inn á emailið þitt þá getur sá hinn sami fengið lykilorðið þitt af Facebook sent til sín og skoðað öll samskiptin þín þar vegna þess að þau vistast sjálfkrafa og sumir hafa meira að segja lent í vandræðum með því að eyða út samtölum þar. Svo er FB bara ekkert sérlega örugg leið til að chatta á. Jafnvel þótt maður hafi auðvitað ekkert að fela þá er samt óþægilegt að einhver annar sé að lesa samskipti þín við aðra. Þess vegna nær maður sér í Pidgin eða Adium og notar off the record viðbótina. Það er hægt að nota msn addressur á bæði þessi forrit, hættum að nota FB og fáum alla vini okkar aftur á ,,msn”.

Vefsíðan þín

Ef þú vilt hafa vefsíðuna þína algjörlega nafnlausa þá skaltu passa þig á því að prófa ekki tengla í færslum í gegn um vefsíðuna þína án þess að nota t.d Tor. Ef þú ert fyrsta manneskjan til að tengjast vefsíðunni sem þú linkar á þá skilur það mögulega eftir sig slóð. Þú skalt líka reyna að nota Tor til að vinna sem mest af heimildarvinnunni þinni þar sem að færslur sem þú vitnar í hafa mögulega ekki verið heimsóttar í einhvern tíma og því gæti verið mjög auðvelt fyrir þann sem á færsluna að spotta þig.

Hvet alla sem er annt um að vafra í næði að kíkja á Encrypt everything. Þar eru miklu fleiri upplýsingar en hérna á mínu bloggi. Eina vandamálið er að síðan liggur oft niðri eins og til dæmis núna þegar þessi færsla er skrifuð. Mundu líka að þótt þú gerir þetta allt þá ertu ekki ósýnileg/ur þetta  bara gerir það aðeins erfiðara að finna þig.

Af kapítalisma, staðgöngumæðrun og vændi

Rakst á þessa grein fyrir tilviljun á netinu (ókei ég var að lesa Barnaland) þar sem eiga sér stað fjörugar umræður um staðgöngumæðrun. Þessi grein var meðal annars notuð sem innlegg í umræðuna. Ég tók þá ákvörðun þegar ég byrjaði að tuða, að ég nennti ekki þessum vísindaleik þar sem fólk situr sveitt við tölvuna og reynir að finna ritrýndar greinar í virtum fræðitímaritum máli sínu til stuðnings. Það er til nóg af fólki sem stendur í svoleiðis. Það útskýrir e.t.v hvers vegna ég læt þvætting Kajsu, t.d að um sé að ræða ,,blómlegan iðnað þar sem lágstéttarkonur á Vesturlöndum eru notaðar til undaneldis fyrir þá ríkari.” liggja á milli hluta. Ég nenni einfaldlega ekki að skiptast á löngum rannsóknum sem eru í þokkabót tímafrekar og leiðinlegar aflestrar. En bendi þó áhugasömum um slíkt að kíkja á þessa.

Nokkrir punktar um grein Kajsu Ekis Ekman sem birtist á knúzinu fyrir löngu síðan.

1. Það var svo sem auðvitað að forhertir og samviskulausir kapítalistar myndu gerðu iðnað úr því að láta konur fæða börn fyrir aðra. Þegar þeir hafa komist að því að lágstéttarkonur voru auðveld skotmörk leið eflaust ekki langur tími þar til að einhver hefur fengið dollaramerki í augun og horft til staða þar sem margir eru jafnvel í verri málum en blankar konur í hinum vestræna heimi, eins og til dæmis á Indlandi. Að taka svona stórt hlutverk að sér verður alltaf að vera á forsendum þeirrar konu sem tekur þessa ákvörðun, þ.e að ganga með barn/börn fyrir aðra. Við megum ekki og eigum ekki að taka ákvörðun fyrir hana, sama hversu vel við meinum. Þess vegna eigum við miklu frekar að setja leikreglur. Leikreglur sem hreinlega banna að milliliðir græði umfram það sem eðlilegt megi teljast, þá á ég við að standa undir rekstri á viðurkenndri stofu sem hefur milligöngu um þessi mál, þar sem þess gerist þörf. Huga skal fyrst og fremst að heilsu og öryggi konunnar sem ákveður að stíga þetta skref, að verða staðgöngumóðir. Reglur þar sem gengið er úr skugga um að allir skilji skilmálana og viti út í hvað þau/þær eru að fara.

Það má taka stóran hluta af okkar kúltúr og afhjúpa ljótu klæðin auðveldlega, þá á ég við bara til dæmis Kárahnjúkavirkjun (,,stærstu framkvæmd íslandssögunnar”) sem var reist af verkamönnum/þrælum sem voru fluttir inn, látnir búa í gámum við ömurlegar aðstæður í skítakulda á lúsarlaunum. Til þess að fólk gæti unnið við m.a vopnaframleiðslu í álveri Alcoa á Reyðarfirði svo það gæti keypt fatnað, skó og súkkulaði sem barnaþrælar eiga stóran þátt í að komist inn á okkar heimili. Gengið í 66N úlpum saumaðar af erlendu verkafólki, fullri af dún sem var öllum líkindum reyttur af lifandi fiðurfé, með loðhettu sem sennilega var náð af einhverju vesalings dýri með því að flá það lifandi. Margt af þessu sem ég taldi upp er að mínu mati mun ógeðslegra og sjúkara heldur en hugmyndin um staðgöngumæðrun en við teljum samt til eðlilegra réttinda okkar að nálgast. Þótt við vitum alveg að súkkulaðið sem við borðum sé framleitt af fyrirtækjum eins og Nestlé með innihaldsefni sem við vitum að er framleitt af barnaþrælum, þá kaupum við það samt. Viðbjóðurinn er svo mikill og óyfirstíganlegur að við kjósum að hundsa svona lítilræði. Við hundsum líka vitneskju okkar um hvað Shell er að gera á Niger Delta og tökum bara samt bensín hjá þeim af því að Shell stöðin er nær okkur en hin sem er hvort sem er flækt í eitthvað dúbíus viðskiptasvínarí. Það er viðbjóðslegt að gera örvæntingu eða varnarleysi einhvers að gróða fyrir sig, alltaf. En það eru engin rök að finna það ljótasta sem viðgengst í sambandi við staðgöngumæðrun og reyna síðan að stilla manni upp við vegg og segja: VILJIÐ ÞIÐ ÞAÐ KANNSKI? HA?

2. Næst tekur við ágætis umfjöllun um hvernig viðbjóðslegt fólk fer með annað fólk á Indlandi til að græða á því, virkilega sorglegt og óafsakanlegt.

3. Mér finnst pínu broslegt að spyrja hvort líkami konunnar tilheyri henni sjálfri eða öðrum og ég þykist vita að þarna ætti maður að staldra við og hugsa ,,auðvitað tilheyrir líkami konunnar henni sjálfri ekki öðrum”. Á meðan fólk eins og Kajsa Ekis Ekman eru einmitt að reyna að hafa líkamann af konum með siðferðislegum predikunum sínum, þau mega eiga það að þau sýna þó mikla herkænsku. Til dæmis geri ég ráð fyrir því að skoðanasystur og bræður Kajsu hafi fengið vændisbannið sem er yfirleitt kölluð sænska leiðin í gegn með því að gera þann sem stundar vændi að einhverjum sem þurfi að bjarga. Það á auðvitað ekki að vera glæpur að selja nauðbeygður líkamspart sem er háheilagur á meðal þessa fólks, svo heilagur að hver sá sem myndi vilja selja aðgang að honum væri annað hvort í mikilli neyð eða bara hreinlega andlega sjúkur. Það gerir auðvitað þann sem vill kaupa slíka þjónustu að viðbjóðslegum níðing og þá má banna. Og ekki nóg með það heldur á ekki bara að banna heldur væri best ef þeir sem eru svo viðurstyggilegir að kaupa þessa þjónustu fengu að þola smá ,,public humiliation” eins og margir feministar vildu láta vændiskaupendurna sem voru dæmdir fyrir luktum dyrum um árið ganga í gegn um. Þeir (feministar sem og aðrir) urðu ekkert lítið tjúllaðir þegar ekkert varð úr því að þau fengju að setja andlit á skrímslin. Meira að segja ef þú bara sýnir áhuga á því að kaupa vændi máttu eiga von á að Schutzstaffel-sveitir Stóru Systur (SS) hafi gætur á þér og hóti þér mannorðsmissi, jafnvel kosti þig mögulega hjónabandið, börnin og vinnuna líka, allt eftir hvernig skapi hún er í. Meira að segja þótt þetta sé einungis fantasía sem þú eigir með öðrum í gegn um internetið og þurfi aldrei að ganga lengra. Það þarf varla að taka það fram en ég geri það samt að sænska leiðin hefur valdið miklum skaða einfaldlega vegna þess að þessir menn sem á að hafa ,,æruna” af, örugglega helst það sem eftir er ævinnar, eru nefnilega margir svo grimmir að þeir tilkynna það ef þeim finnst eitthvað grunsamlegt í gangi. Til dæmis ef þá grunar að einhver sé seldur í vændi gegn síns vilja. Þeir sem kaupa vændi eru nefnilega mikilvægasta upplýsingaveitan. Það eru þeir sem sjá hvað er í gangi á bak við dyr sem er okkur flestum hulið, og við getum bara giskað og dregið misgáfulegar ályktanir.

4. Svo kemur einhver þvæla eins og að algeng rök fyrir vændi séu til að fatlaðir gagnkynhneigðir karlmenn fái að stunda kynlíf, þetta hef ég bara aldrei heyrt áður. Ég hef vissulega heyrt af skipulögðum ferðum fatlaðra karlmanna á vændishús en ég hef aldrei heyrt nokkurn mann nota þetta sem rök í almennri umræðu um að leyfa vændi. Það má vel vera að einhver apaköttur hafi látið hafa þetta eftir sér og kannski jafnvel tveir en þetta eru svo sannarlega ekki góð rök fyrir hvers vegna vændi og vændiskaup ættu að vera lögleg.

5. Hommar og einhleypir karlmenn eru víst algeng rök með staðgöngumæðrun, því get ég svo sem alveg trúað, amk með hommana. Ég held ég hafi meira að segja heyrt það nokkrum sinnum. Að þeir séu næstir til að eiga að njóta ávaxta píkunnar, rétt eins og fatlaðir. Djásnið sem flestar konur bíða (rétt eins og karlar með sitt), yfirleitt eftir einhverjum sérstökum, sennilega yfirleitt lífsförunaut, til að njóta með. En það er ekki raunin, hommar og gangkynhneigðir menn eru víst í minnihluta og flestir sem nýta sér staðgöngumæður eru hetrósexjúal pör. En þarna kemur svolítið skemmtileg röksemdafærsla hjá nýju bestu vinkonu Tuðarans henni Kajsu, gefum henni orðið: ,,Þá er varla hægt að halda því fram að það sé hlutverk kvenna að lána þeim líkama sinn sem ekki geta átt börn.” Ókei, eigum við að prófa að skipta hlutverk út fyrir réttur, það er auðvitað ekki hlutverk kvenna að geta börn fyrir fólk útí bæ, en það ætti svo sannarlega að vera réttur þeirra sem vilja það. Svo kemur eitthvað um að börn vaxi ekki á trjám og ,,sálin” (sem flest bendir til að sé ekkert annað en tilbúningur og oft notuð til að koma inn samviskubiti hjá fólki) breytist í ferlinu. Það er hætta á meðgöngueitrun og öllum fjandanum segir hún, sem er alveg rétt og ég held að allir geri sér grein fyrir. Enda held ég að enginn í umræðunni um staðgöngumæðrun á Íslandi líti á þetta sem eitthvað sjálfsagt, það gera sér held ég allir grein fyrir því að það að gerast staðgöngumóðir er ákvörðun sem á eftir að breyta lífi þeirra sem koma að gjörningnum til frambúðar.

6. Hérna fer hún að tala um barnið sem þriðja aðila og þar með í raun bara fórnarlamb í einhverju sem það hafði ekkert að segja um (rétt eins og alltaf þegar barn kemur í heiminn, heh). Það var bara allt í einu bara mætt á staðinn öskrandi og gargandi og fór svo í fangið á nýjum foreldrum, rétt eins og við ættleiðingu. Þegar hingað var komið í lestrinum var ég farinn að velta fyrir mér hvort að greinarhöfundur sé líka á móti ættleiðingum, getur það verið? Vegna þess að hún fer að tala um að það sé óeðlilegt að gefa börn frá sér. Svo segir hún að það sé bannað, sem ég veit ekki hvort sé bannað skv henni eða lögum að gefa börn frá sér án ástæðu. Hver gefur líka barn frá sér án ástæðu, er það yfir höfuð hægt? Henni þykir líka ljótt og óeðlilegt að undirrita það sem hún kallar því smekklega nafni (eða þýðandinn) ,,eignaskipti”, á barni. Kannski þykir henni rétt að kalla umsókn um leyfi til ættleiðingar þessu nafni líka ,,eignaskipti”, þarna finnst mér hún gera ósmekklega tilraun til að niðurlægja börn sem hafa komið í heiminn með hjálp staðgöngumæðra og þeim sem hafa verið ættleidd. Að segja það næstum hreint út þau séu ekkert nema bara varningur í ljótum leik.

7. Svo kemur röfl um hlutgervingu og hvernig sé rétt skv hennar siðferðiskompás að geta og ganga með börn, sem ég nenni eiginlega ekki að eyða orðum í.

En ég hlýt auðvitað að hafa miskilið þetta allt saman.

P.s Kvenfrelsi er yndislegt!

Hvað um þá sem eru sekir?

Ég var búin að lofa sjálfum mér að fara ekki út í þrætueplið um lögleiðingu vímuefna, einfaldlega vegna þess að mér leiðist það umræðuefni og hef eytt of miklum tíma í það að reyna að sannfæra fólk um ágæti þess að fólk fái að ráðstafa eigin líkama eins og það vill, hvort sem um er að ræða neyslu vímuefna eða líknardráp. En vegna fyrri pistils um valdníðslu lögreglu á saklausum borgurum verð ég eiginlega að fylgja því eftir að stundum ber leit lögreglu á þeim sem er grunaður tilætlaðan árangur og í kjölfarið verður til sakamál. Hversu mörgum heimilum, bílum, vösum eða töskum lögreglan þarf að leita í til að hafa upp á einhverjum sem hefur eitthvað að fela miðað við núverandi löggjöf veit ég ekki, en ég hef ljótan grun um að árangur lögreglunnar byggist að mestu leyti á valdníðslu og handahófskenndum ásökunum.

En engu að síður þá er til fólk sem er með eitthvað saknæmt í fórum sínum og með aðgerðum lögreglu kemst hún yfir sönnunargögn því til staðfestingar og kærir í kjölfarið viðkomandi fyrir brot sitt. Í kjölfar ákæru verður síðan til mál á hendur þeim sem brýtur af sér en svo eru allur gangur á því hvernig það mál endar, það getur endað með t.d dómsmáli, dómssátt eða bara frávísun. En það er sá galli á gjöf Njarðar að til þess að búa til þetta mál þarf að brjóta á rétti margra annarra með löglegum og ólöglegum leitum. Dæmi um löglega leit er þegar lögregla hefur dómsúrskurð þess efnis að leita megi á og í eigum einstaklings vegna gruns um að eitthvað saknæmt eigi sér stað, eða ef að sá sem liggur undir grun lögreglu um glæpsamlegt athæfi heimili henni að leita í eigum sínum.

Athugið að eina ástæðan fyrir því að það er löglegt fyrir lögreglu að leita á einstaklingi eða í eigum hans að því gefnu að hann gefi samþykki sitt, er að einstaklingur má gefa hverjum sem er slíka heimild, auðvitað. Það er hverjum manni í sjálfsvald sett hvort hann gefi þetta leyfi hvort sem það er til lögreglu eða annarra sem eru forvitnir um hagi hans. Svo eru það ólöglegu leitirnar. Þannig leit getur til dæmis verið þannig að einstaklingur undir 18 ára aldri er tekinn og á honum leitað án þess að samþykki eða samráð sé haft við foreldra eða barnavernayfirvöld, þeim er jafnvel ekki einu sinni tilkynnt um að barn (einstaklingur undir 18 ára), hafi lent í líkamsleit. Þetta er ekki eitthvað sem gerist einstaka sinnum á meðal rotinna epla heldur er þetta eitthvað sem viðgengst daglega. Sjálfur þekki ég mýmörg dæmi um slíkar leitir. Eins og Helga Völundardóttir benti á í frábærri grein á Smugunni:

 ,,Unglingar í dag líta t.d. ekki á lögregluna sem verndara, heldur sem ógn. Orðinu á götunni er þannig háttað að lögreglan stöðvi þá sem þeim sýnist, fólk á gangi, fólk í kyrrstæðum bílum. Spyr spjörunum úr, leitar í bakpokum. Ungir drengir í hettupeysum á ferðinni eftir myrkur eru í sérstökum áreitis-áhættuhóp hef ég heyrt.“

Ég veit ekki hversu mörgum bílum, bakpokum, heimilum eða öðrum hirslum lögregla þarf að leita í til að finna einn ,,þrjót“, en ég ætla að áætla varlega að það sé svona 2 af 10. Ástæðan fyrir að við eigum ekki að heimila lögreglu leit á okkur eða eigum okkar er ekki sú að við höfum eitthvað að fela eða að ef við verðum samvinnufús byggjum við upp heilbrigt samfélag sem hefur það að markmiði að koma upp um glæpi, glæpi sem að einhver fremur og kemur niður á einhverjum öðrum. Heldur vegna þess að ef að við ætlum ekki að búa í lögregluríki þurfum við að standa fast á okkar og ég verð bara að segja að ef að fórnarkostnaðurinn við það að búa ekki við slíkt ofríki sé að hassmoli komist frá Reykjavík til Neskaupstaðar eða ef að stolið sjónvarpstæki úr sumarbústaði komist á svartan markað, þá bara so be it.

Ef að lögregla ætlar að koma upp um glæp þá á hún að gera það eftir þeim leikreglum sem hafa verið settar.

Athugið að Í 75. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 segir að leit skuli ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki eiganda eða umráðamann. EN! Þar segir þó einnig að: ,,Leit er þó heimil án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum.” Ef þú einhverntíma lendir í því að þetta sé notað sem ,,rök” gegn þér þá skaltu athuga að þú átt rétt á skýrslu um að á þér hafi verið leitað án tilefnis og átt einnig rétt á að bera þá ákvörðun lögreglu um að leita á þér undir dómara.

Sem sagt, þú ræður! Það er þitt val að heimila lögreglu að leita á þér. Vandamálið er hinsvegar eins og ég benti á í fyrri pistli sem ég skrifaði að auðvelt er að kúga einstakling til að veita þetta leyfi með hótunum um handtöku og heimsókn upp á lögreglustöð. Þar sem viðkomandi þarf að dúsa í jafnvel nokkrar klukkustundir þangað til einhver hefur tíma til að sinna því að berstrípa ,,glæpamanninn“ til að ganga úr skugga um að sá grunaði hafi alveg örugglega ekkert saknæmt undir höndum.

Þá er gjarnan spurt, hvað um þá sem eru sekir? Nú, lögregla skal bara fara að lögum og vinna eftir þeim, þannig ættu þeir að geta gómað þá sem þeir telja að séu lögbrjótar, í samræmi við lög. Það er ekki eins og það skorti heimildir til að ná þeim sem eru sekir um eitthvað misjafnt. Ég held að það séu fáir sem vilja búa í lögregluríki, en það að lögregla sé að leita handahófskennt um bæinn á einstaklingum og í eigum þeirra með hótunum tel ég vera góða byrjun á lögregluríki.

En hvað er til ráða? Hvað getum við lagt að okkar mörkum til að stöðva þessa ömurlegu þróun?

Hér eru nokkur ráð:

Þekktu rétt þinn, það er alveg á kristaltæru að til þess að leita á þér eða eigum þínum þá þarf lögregla samþykki þitt eða heimild frá dómara ,,nema ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum.”. Ef þú vilt ekki veita lögreglu leyfi þá verður hún einfaldlega annað hvort að handtaka þig og fara með þig upp á stöð. Þar sem hún þarf að bíða eftir heimild til þess að leit fari fram, þ.e.a.s ef að dómari er til í að veita slíka heimild eða kveðja þig og halda sinni för áfram.

Biddu um lögfræðing:

Það er lagalegur réttur þinn að þér sé skipaður verjandi, svaraðu öllum spurningum með ,,ég neita að tjá mig“, þangað til verjandi kemur og þú getur ráðfært þig við hann.

Fáðu skýrslu:

Ef þú ætlar að standa á rétti þínum, þá skaltu aldrei ALDREI, yfirgefa lögreglustöðina nema með skýrslu undir höndum um hvað hafi átt sér stað.

Segðu frá:

Vitandi það að þessi þrjú dæmi sem ég nefni að ofan eru ekkert endilega alltaf raunveruleikinn og lögregla brýtur ítrekað. Þá er það sem þú getur gert að segja frá, láttu vini þína vita að á þér hafi verið brotið, bloggaðu um það, sendu email á fjölmiðla, skráðu reynslu þína af valdníðslunni og reyndu að fá hana birta einhversstaðar. Það er fullt af fólki þarna úti sem hefur sömu sögu að segja. Það má senda mér línu á tudarinn@gmail.comog ég sé hvað ég get gert. Eða bara skildu eftir frásögn í kommentakerfinu hér. Ef við byggjum saman upp gagnagrunn frásagna af þessari valdníðslu, og ég tala nú ekki um að ef við höfum fjöldan allan af skýrslum undir höndum um að lögregla hafi að tilefnislausu gripið inn í raunveruleika okkar og brotið á rétti okkar, getum við mögulega breytt einhverju.

Hér er góður lestur frá einum ,,sekum”. Munum að þótt við séum sek, þá eigum við líka rétt.

Um leitina frægu í Tækniskólanum og hvers vegna hún var ólögmæt

Að hafa ekkert að fela

Þegar umræða um auknar heimildir yfirvalds til að afla upplýsinga um borgarana kemur upp skiptist fólk gjarnan í tvær fylkingar. Það er, þeir sem vilja gefa rýmri heimildir og þeir sem vilja það ekki. Fyrri hópurinn á það til að nota röksemdafærsluna ,,Ef þú hefur ekkert að fela við hvað ertu þá hrædd/ur“ eða ,,Ef þú ert ekki að gera neitt af þér, hvers vegna ertu þá hrædd/ur?“. Í þessum pistli ætla ég að reyna að varpa ljósi á hvers vegna mér finnst það skapa borgaralegum réttindum okkar hættu ef allir myndu fallast á að yfirvaldið mætti vera með nefið ofan í hvers manns koppi vegna þess að meirihlutinn hefur ekkert óhreint mjöl í pokahorninu og sjálfsagt er að lögregla fái heimildir til að koma upp um lögbrot, jafnvel áður en þau eru framin.

Þeir eru bara að elta ljótu karlana og passa upp á okkur, þau hafa engan áhuga á að vita hvar og hvenær við pöntum pítsuna okkar eða hvort að við hringjum í ömmu okkar á sunnudögum, og það er hvort sem er ekkert til að skammast sín fyrir ef upp um það kæmist. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega um þessar forvirku rannsóknarheimildir sem lögreglan vill fá, heldur vil ég frekar reyna að útskýra hvers vegna við ættum að vera vör um okkur þegar kemur að rétti okkar til að hafa hluti út af fyrir okkur. Til að svara þeim sem telja enga hættu fólgna í því að auka heimildir til að fylgjast með okkur þurfum við að reyna að njörva niður hvað sé friðhelgi einkalífs og hvers vegna það sé mikilvægt að halda í þau forréttindi að njóta þeirra, burtséð frá því hvort við séum að gera eitthvað af okkur eða ekki. Tökum dæmi:

Ungur maður er að keyra heim til sín eftir að hafa gengið upp Esjuna með vinkonu sinni, hann er í heimatilbúnum pokabuxum, fjólublárri ullarpeysu, með grænan klút um hálsinn, sítt hár og hring í augabrúninni. Hann tekur eftir því að lögreglan er fyrir aftan hann, ,,Djöfullinn, ætli þeir stoppi mig!“ hugsar hann. Þar sem að viðkomandi er tiltölulega bílhræddur þá keyrir hann sjaldnast yfir 80 km hraða þannig að lögreglan ákveður að taka fram úr, þeir keyra á hinum vegarhelmingnum og hægja á sér og horfa á ökumanninn, eftir að hafa virt hann fyrir sér dálitla stund hægja þeir á sér, hætta við að taka fram úr og koma sér fyrir aftan bílinn og setja bláu ljósin á. ,,Oh, er ég ekki örugglega með ökuskírteinið, jú, hjúkk ég tók veskið með.“ Hann leggur úti í kanti og lögreglumaður kemur að niðurskrúfaðri bílrúðunni og spyr eftirfarandi spurninga;

* Hvert ertu að fara?

* Hvaðan ertu að koma?

* Hvað gerir þú?

* Hvar býrðu?

Ekki múkk um skráningarskírteini eða ökuskírteini heldur á sér þarna stað yfirheyrsla úti í kanti við þjóðveginn að engu tilefni. Ungi maðurinn svarar spurningunum en þykja þær heldur óþægilegar og furðulegar, lögreglumaðurinn heldur áfram;

,,Neytir þú fíkniefna?“Spyr hann.

,,Hvers vegna er svona mikil hasslykt í bílnum hjá þér?“

,,Bíddu nú við“ hugsar ökumaðurinn. ,,Það hefur ekkert hass verið reykt í þessum bíl að mér vitandi, ah ég anga örugglega af svitablandaðri patchouli lykt, hann heldur að ilmolían sem ég er með sé graslykt“. Ungi maðurinn svarar; ,,Það er engin hasslykt í bílnum, hér hefur ekkert hass verið reykt, hinsvegar nota ég ilmolíu sem að gæti verið að rugla þig eitthvað“. Lögreglumaðurinn tekur upp vasaljós og lýsir í augu unga mannsins.

,,Má ég leita í bílnum hjá þér?“ spyr lögreglumaðurinn.

,,Leita í bílnum hjá mér? Hvers vegna í ósköpunum vill hann leita í bílnum hjá mér, hann hefur enga ástæðu til þess.“hugsar ungi maðurinn. Prinsippsins vegna svarar hann neitandi. Hann á fullan rétt á því að fara út fyrir bæinn í göngutúr með vinkonu sinni án þess að á honum sé leitað og hann sakaður um glæpsamlegt athæfi án þess að hafa gefið neitt upp í yfirheyrslu lögreglunnar sem benti til annars en að hann væri bara á heimleið eftir fjallgöngu.

,,Hvers vegna ekki?“ Spyr lögreglumaðurinn á móti með þjósti.

Ungi maðurinn útskýrir fyrir lögreglumanninum að til þess að leita í bílnum þurfi hann heimild og rökstuddan grun um að eitthvað vafasamt væri þar að finna, eða að hann sjálfur myndi veita honum leyfi til þess, sem hann vildi ekki gera þar sem ekkert af þessum skilyrðum séu uppfyllt og sér finnist lögreglan vera með þessu móti að ráðast inn á hans persónulega rými.

,, Þá verðum við að handtaka þig vegna gruns um fíkniefnamisferli!“ Ansar lögreglumaðurinn önugur.

,,Hvað er nú í gangi? Handtaka mig vegna gruns um fíkniefnamisferli og fara með mig upp á lögreglustöð og leita í bílnum mínum“. Hann finnur að prinsippið er að bresta, enda dauðþreyttur og langar bara að komast heim í sturtu og snemma í rúmið. ,,Andskotinn hafi það, ég heimila þeim bara leit í bílnum og á mér svo get ég farið heim og vonandi verið í friði þar.“ Hann stígur út úr bílnum og hinn lögreglumaðurinn er kominn út að hjálpa hinum að leita. Þegar búið er að káfa á honum, athuga í vasana og búið að leita í bílnum fær hann loks að halda áfram. Engin skýrsla, engin afsökunarbeiðni, ekki neitt.

Ég er ekki lögfræðingur en þetta finnst mér vera dæmi um hvernig brotið er á friðhelgi einkalífs ökumanns bifreiðarinnar og vegið að borgaralegum réttindum hans. Þetta er í það minnsta valdníðsla og það er svona valdníðsla sem verður til vegna þess að fólk gefur eftir af réttindum sínum. Hann er beinlínis kúgaður til að heimila leitina vegna þess að ef að hann gerir það ekki þá þýðir það að hann er færður upp á lögreglustöð, jafnvel settur inn í fangaklefa, kannski afklæddur við líkamsleit og niðurlægður. Eingöngu vegna þess að hann vildi standa vörð um þann rétt sinn að yfirvaldið gæti ekki bara vaðið í hans eigur fyrirvaralaust og brúkað að vild í von um að finna eitthvað annarlegt á hann. Hann hafði ekkert saknæmt að fela og hafði heldur ekki í hyggju að gera neitt ólöglegt. Né heldur hafði hann sagt eða gert eitthvað sem benti til þess að hann væri undir áhrifum fíkniefna eða hefði þau í fórum sér.

En þrátt fyrir það lág hann undir grun og þess vegna var fylgst með honum, hann yfirheyrður og svo í kjölfarið leitað á honum og í bílnum hans. Þið getið rétt ímyndað ykkur að ef þetta er eitthvað sem að lögreglan stundar (og ég veit að hún gerir), hvernig hún muni fara með auknar heimildir til að fylgjast með fólki sem hún hefði undir grun fyrir hitt og þetta. Ef það eina sem að þarf til að liggja undir grun er að vera akandi um þjóðveginn. Ef lögreglan hagar sér svona gagnvart fólki áður en hún fær til þess rýmri heimildir, hvað gerir hún þegar hún má ganga ennþá lengra? Lesa póstinn þinn, hlera símann þinn, koma fyrir hlerunarbúnaði heima hjá þér þegar þú ert ekki heima, sjá hvaða vefsíður þú skoðar, kíkja yfir tölvupóstinn þinn, skoða skilaboðaskjóðuna á Facebook, og svo mætti lengi telja, löglega og án þess að hafa rökstuddan grun um að þú ætlir þér eitthvað skelfilegt!

Það sem fólk heldur er nefnilega að það komi ekkert fyrir það vegna þess að það hafi ekkert að fela, það hafa allir eitthvað sem þeir vilja hafa út af fyrir sig. Ekki endilega eitthvað sem varðar við lög, heldur eitthvað sem fólk vill hafa prívat. Væri einhver til í live stream sent upp á lögreglustöð úr stofunni heima hjá sér, tja eða svefnherberginu? Eða öllu heldur og líklegra að einhver liggi á hleri og skrái niður hvert orð og eigi upptöku af því þegar þú átt í samskiptum við einhvern í trúnaði? Það eru sjálfsagt til einhverjir sem að myndu sjálfviljugir prenta út öll rafræn samskipti sín, sjúkraskýrslur, dagbækur, bankaupplýsingar, yfirlit yfir hvaða bækur viðkomandi hafi tekið á bókasafninu í gegn um tíðina og svo framvegis og afhenda lögreglu til aflestrar en ég held að þeir séu ekki margir. Sem betur fer.

Rasistafífl í Smáralind

Það er eitt gott við þetta gerpi sem að var að bögga krakkana í Smáralind og það eru viðbrögðin. Ég hef nú aldrei verið sérstaklega hrifin af múgæsing, en þegar málstaðurinn er réttur þá er ég alveg meira en til. En svona í fullri alvöru hvað gekk manninum til? Bögga einhverja litla krakka í verslunarmiðstöð til að bústa upp eigið egó… Oh jæja. Síðasta fíflið er ekki fætt. Það eru ekki mörg ár síðan rasismi þótti bara nokkuð töff hjá sumum, sorglega mörgum. Ég var unglingur þegar að mikið af fólki frá Thailandi var að flytja til Íslands og það var ekki lítill rasismi sem að var í gangi þá. Þau voru kölluð öllum illum nöfnum til dæmis ,,grjón“ og ,,núðlur“ og fleira álíka smekklegt, beint upp í andlitið á þeim. Það er gott að sjá að þetta sé allt saman að þokast í rétta átt. En þó er enn af nógu að taka, ég hlakka til ef sá dagur rennur upp að fólk flykkji liði á sama hátt fyrir aftan flóttafólk. Það er ekki langt síðan ég sá ljóta umræðu í hinum elegant kommentakerfum fjölmiðla um flóttamenn sem að hafa ítrekað reynt að flýja land og tókst síðan en fundust því miður í skipi í Englandi. Hinn agalega lekker fjölmiðill Morgunblaðið birti líka í sumar leiðara þar sem þeir settu flóttafólk innan gæsalappa þegar þeir fjölluðu um ,,hælisleitendur”, vafalaust til að draga í efa að þeir væru í raun flóttamen. Í sama leiðara var rekið upp harmakvein yfir hælisleitendunum sem reyndu að flýja land með vél Icelandair og að þeir hafi valdið flugfélaginu miklum kostnaði.

Hér er myndbandið sem einn krakkana tók upp fyrir þá sem vilja horfa.